Kjallari

Stór kjallari er undir húsum og inngarði. Hann er að mestu á tveimur hæðum fyrir utan lítinn hluta á þremur hæðum. Þar verða sameiginlegar geymslur, sérgeymslur íbúða, inntaksrými og bílastæði.

Bílastæði

Í bílakjallara eru 183 bílastæði sem verða til útleigu til lengri eða skemmri tíma, en einnig verður hægt að greiða fyrir stæði eftir tímamæli innan dagsins. Inn- og útkeyrsla er frá einum stað frá Skeifunni.

Allar greiðslur fyrir stæði munu fara í gegnum app sem gerir allt utanumhald einfalt og auðvelt. Myndavélar taka mynd af bílnúmerum þegar keyrt er niður í bílakjallara til að auka skilvirkni og öryggi. Fyrirkomulagið gerir það að verkum að ekki er þörf á aðgangsstýringu með hliðum eða útprentun á miðum til að leggja í stæði kjallarans.

Í fullbúnum bílakjallara verða settar upp nokkrar hraðhleðslustöðvar fyrir rafknúnar bifreiðar.

Geymslur

Í kjallara eru allar séreignageymslur íbúða. Einnig er þar að finna sameiginlega sorpgeymslu og um 300 fermetra hjólageymslu sem verður aðgengileg fyrir íbúa og starfsmenn atvinnuhúsnæðis.

Hjólanotkun er að aukast mikið ár frá ári og verður slíkur ferðamáti sífellt raunhæfari og vinsælli valkostur sem samgöngumáti fyrir fólk sem býr miðsvæðis á Stór-Reykjavíkursvæðinu þar sem láglendi er meira en upp í hlíðum úthverfa.

Sorpflokkun er öll inni í sameiginlegri sorpgeymslu í gegnum lúgur á veggjunum, sem gerir aðgengi það sama hvort sem um vetur eða sumar er að ræða. Engin sorpgeymsla eða flokkun er utandyra á lóð.

Deilibílar

Samnýting á veraldlegum verðmætum verður alltaf mikilvægari í nútíma samfélagi. Samhliða því að samnýta megnið af bílastæðum í kjallara í formi leigustæða þá er markmiðið að setja upp deilibílaþjónustu með nokkrum bílum þegar bílakjallari verður fullbúinn.

Deilibílar verða aðgengilegir fyrir íbúa og atvinnustarfsemi á lóðinni. Fyrirkomulag liggur ekki endanlega fyrir en markmiðið er leigufyrirkomulag þar sem einfalt app verður notað fyrir aðgengi að bílunum og mögulegir notendur verða forskráðir.

Deilibílar verða hluti af nýtískulegu og vistvænu umhverfi á Grensásvegi 1.